2523

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Reglur um félagslega heimaþjónustu

1.gr. Félagsmálanefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga fara með yfirstjórn félagslegrar heimaþjónustu fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig. Félagsmálastjóri Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga sér að öðru leiti um daglegan rekstur þjónustunnar.

2.gr. Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að leitast við að efla þjónustuþega til sjálfshjálpar og stuðla að því að viðkomandi geti búið sem lengst í heimahúsum, við sem eðlilegastar aðstæður. Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er að aðstoða við heimilishald, aðstoða við persónulega umhirðu, veita félagslegan stuðning og aðstoð við umönnun barna.

3.gr. Forsendur úthlutunar félagslegrar heimaþjónustu er að þjónustuþegi búi í heimahúsi og geti ekki hjálparlaust séð um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í þeim tilvikum sem umsækjandi deilir heimili með fullorðnum einstaklingi (þ.e. 18 ára og eldri), sem á ekki við veikindi að stríða, er að öllu jöfnu ekki veitt heimaþjónusta.

4.gr. Þjónustuþörf skal metin í hverju einstöku tilviki og skal þá leitast við að veita þá þjónustu sem viðkomandi umsækjandi eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir. Umsækjendur skulu fylla út skriflega umsókn á þar til gerðu eyðublaði. Læknisvottorð eða vottorð frá öðrum fagaðilum skal liggja fyrir. Auk þess skal umsækjandi framvísa nýrri skattskýrslu, afrit af síðustu þremur launaseðlum eða bótaseðlum frá Tryggingastofnun ríkisins.

5.gr. Félagsmálanefndin tekur ákvörðun um, hvort skilyrði séu fyrir hendi til að veita félagslega heimaþjónustu. Hægt er að áfrýja ákvörðun ráðsins til úrskurðarnefndar félagsþjónustu í Félagsmálaráðuneytinu innan 4 vikna frá dagsetningu á skriflegu svari til umsækjenda.

6.gr. Félagsmálastjóri útbýr í umboði félagsmálanefndarinnar reglur og leiðbeiningar fyrir starfsfólk félagslegrar heimaþjónustu, þar sem nánar eru tiltekin verkefni starfsmanna, skyldur þeirra og réttindi. Kynna skal reglur þessar fyrir starfsfólki og þjónustuþegum.

7.gr. Hvert sveitarfélag fyrir sig greiðir laun starfsmanna í félagslegri heimaþjónustu og gilda þar samingar á milli viðkomandi sveitarfélags og viðkomandi stéttarfélags. Starfsmönnum er óheimil fjárhagsleg umsýsla fyrir þjónustuþega. Auk þess sem þeim er óheimilt að taka við gjöfum, greiðslum eða öðru þess háttar frá þjónustuþega.

8.gr. Starfsmenn eru bundir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu um einkamál þjónustuþega og heimilishald. Þagnarskylda helst þó látið sé af starfi.

9.gr. Félagsleg heimaþjónusta skal að öllu jöfnu veitt á dagvinnutíma frá 9.00-17.00 mánudaga til föstudaga. Vinna utan þess tíma er ekki heimil nema brýna nauðsyn beri til að fengnu samþykki félagsmálanefndarinnar.

10.gr. Fyrir félagslega heimaþjónustu skal greitt samkvæmt reglum þessum. Um er að ræða fjórskipta reglu.

  • Njóti þjónustuþegi skertrar tekjutryggingar eða lífeyristekna umfram almennan grunnlífeyri greiðir hann 43, 3% kostnaðar af vinnustund, auk sama hlutfalls af launatengdum gjöldum.
  • Sé þjónustuþegi með óskerta tekjutryggingu, s.s. njóti ekki atvinnutekna, þar með talið atvinnutekna maka eða greiðslna úr almennum líferyrissjóði eða annarra bóta, eða greiðslna er viðkomandi undanþegin gjaldskyldu.
  • Sé þjónustuþegi með fullar atvinnutekjur eða meira en 10.000 kr. í lífeyrisgreiðslur aðrar en almennar grunnlífeyrisgreiður, greiðir hann fullt gjald fyrir hverja vinnustund.
  • Þjónustuþegar sem fá þjónustu tímabundið vegna veikinda eða slysa, greiða sem svarar 80% kostnaðar af vinnustund.

11.gr. Við mat á greiðslugetu þjónustuþega skal ávalt tekið tillit til heimilistekna og heildaraðstæðna fjölskyldunnar. Félagsmálanefnd sveitarfélaganna þriggja er heimilt að gefa eftir hluta greiðslu fyrir veitta þjónustu eða fella greiðslur alveg niður, allt eftir aðstæðum þjónustuþega.

12.gr. Sú félagslega heimaþjónusta sem fjallað er um í reglum þessum, er í samræmi við VII kafla l. nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, 15.gr. l. nr. 82/1989 um málefni aldraðra, 21.gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 og 8.gr. l. nr. 59/1992 um málefni fatlaðra.

Samþykkt á fundi félagsmálaráðs Sandgerðisbæjar þann 7. febrúar 2001. Endurskoðað með tilliti til sameiginlegrar félagsmálanefndar Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga júní 2007.

Nánari upplýsingar um þjónustu við fatlað fólk veita starfsmenn félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Sv. Garðs og Voga í síma 420-7555.


 

Færðu mig upp fyrir alla muni!