2511

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Reglur fyrir ferðaþjónustu fatlaðra

1.gr. Félagsmálanefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga fer með yfirstjórn í málefnum fatlaðra fyrir ofangreind sveitarfélög. Félagsmálastjóri Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga sér að öðru leiti um daglegan rekstur þjónustunnar.

2.gr. Markmiðið með ferðaþjónustunni er að gera fötluðum sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda vinnu eða nám og njóta tómstunda og einnig til að njóta sértækrar þjónustu sem miðast við þarfir hvers og eins. Sveitarfélögin áskilja sér rétt til þess að krefjast greiðslna þegar um ræðir ferðir vegna náms, menningarlífs og félagslífs en gjald fyrir hverja ferð er 150 kr. Ferðaþjónusta vegna nauðsynlegrar þjónustu sbr. 9. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 er hinum fatlaða einstaklingi algjörlega að kostnaðarlausu. Þá er um að ræða akstur á þjónustustofnanir eins og hæfingar- og endurhæfingarstöðvar, dagvistarstofnanir fatlaðra, verndaðir vinnustaðir, leikfangasöfn. Jafnframt er akstur grunnskólabarna á skólatíma vegna sérstakrar þjónustu án endurgjalds.

3.gr. Forsendur úthlutunar aksturs skv. reglum þessum eru eftirfarandi:

  • þjónustuþegi skal eiga lögheimili í Sandgerði, Garði eða Vogum
  • þjónustuþegi skal vera metinn til varanlegrar örorku af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins eða
  • fá greiddar umönnunarbætur af Tryggingastofnun ríkisins.

4.gr. Umsækjendur skulu fylla út skriflega umsókn á þar til gerðu eyðublaði. Þjónustuþörf skal metin í hverju einstöku tilviki af Félagsmálastjóra. Við mat á þjónustuþörf einstaklingsins er metin félagsleg staða viðkomandi og þörf hans fyrir akstur, eðli fötlunar og færni viðkomandi. Nauðsynlegt er að sérfræðimat á þörf umsækjenda liggi fyrir.

Í þeim tilvikum sem ekki er hægt að komast á móts við óskir umsækjenda skal leitast við að finna aðrar lausnir sem uppfylla þarfir viðkomandi.

5.gr. Varðandi akstur skal leitast við að finna heppilegustu lausnina hverju sinni, til þess að samhæfa ferðaþjónustu fatlaðra í bæjarfélaginu. Þegar foreldrar fá greitt fyrir akstur fatlaðra skal greitt skv. kílómetragjaldi eftir að aksturinn hefur verið staðfestur af þeirri stofnun sem viðkomandi sækir þjónustu til. Samþykktin skal vera tímabundin og metin á ný út frá þjónustuþörf einstaklingsins hverju sinni. Til þess að eiga rétt á akstri skal þjónustuþegi búa utan stofnana og sambýla og vera 6 ára eða eldri

6.gr. Félagsmálanefndin tekur ákvörðun um, hvort skilyrði séu fyrir hendi til að veita ferðaþjónustu hverju sinni. Hægt er að áfrýja ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðanefndar félagsþjónustu í Félagsmálaráðuneytinu innan 4 vikna frá dagsetningu á skriflegu svari til umsækjenda. Áfrýjunin skal send til viðkomandi félagsmálanefndar eftir því sem við á, sem kemur áfrýjuninni til úrskurðarnefndarinnar.

7.gr. Sú liðveisla og ferðþjónusta sem fjallað er um í reglum þessum, er í samræmi við kafla XI í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og skv. lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra.

Samþykkt á fundi Félagsmálaráðs Sandgerðisbæjar 31. ágúst 2005.

Endurskoðað með tilliti til sameiginlegrar félagsmálanefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga júní 2007.

Nánari upplýsingar um þjónustu við fatlað fólk veita starfsmenn félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Sv. Garðs og Voga í síma 420-7555.


 

Færðu mig upp fyrir alla muni!