2488

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Sveitarfélaginu Garði

SIÐAREGLUR

 

kjörinna fulltrúa hjá Sveitarfélaginu Garði

 

  1. gr.

Markmið

Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Sveitarfélagsins Garðs.  Öllum kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn og nefndum og ráðum sem sveitarstjórn skipar ber að haga störfum sínum í samræmi við settar siðareglur sbr. 29. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 

  1. gr.

Starfsskyldur kjörinna fulltrúa.

Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglum og samþykktum Sveitarfélagsins Garðs.  Þeim ber að gæta almannahagsmuna og hagsmuna sveitarfélagsins.

Kjörnir fulltrúar hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu.  Kjörnum fulltrúum ber að starfa af kostgæfni, fyrir opnum tjöldum og vera reiðubúnir að rökstyðja ákvarðanir sínar og tilgreina þá þætti sem ákvarðanir þeirra eru byggðar á.  Þeir skulu bera ábyrgð gagnvart bæjarbúum í heild sinni og svara fyrirspurnum almennings um framkvæmd þeirra starfa sem þeir bera ábyrgð á sem kjörnir fulltrúar. 

 

  1. gr.

Valdmörk

Kjörnum fulltrúum ber að gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Sveitarfélagsins Garðs.  Þeir sýni störfum og réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna Sveitarfélagsins Garðs virðingu.

 

  1. gr.

Hagsmunaárekstrar

Kjörnum fulltrúum ber að nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir Sveitarfélagið Garð lýkur.

Kjörnir fulltrúar skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum.  Um hæfi þeirra við meðferð einstakra mála fer eftir 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 

  1. gr.

Ábyrgð í fjármálum

Kjörnum bæjarfulltrúum ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn sem tryggja rétta og ábyrga meðferð á almannafé svo sem einkanotkun á byggingum bæjarins, bílum, tækjum og tólum nema slík heimild falli undir heimildir sem ákveðnar eru af bæjarstjórn.

 

  1. gr.

Gjafir og fríðindi

Kjörnir fulltrúar skulu ekki þiggja gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim er leita eftir þjónustu Sveitarfélagsins Garðs nema að um sé að ræða óverulegar gjafir.  Kjörnir fulltrúar skulu ekki þiggja gjafir eða hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

  1. gr.

Trúnaður

Kjörnir fulltrúar skulu gæta þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.  Trúnaðurinn helst áfram eftir að kjörnir fulltrúar láta af störfum.

Kjörnir fulltrúar skulu virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum í nefndum og ráðum Sveitarfélagsins Garðs, sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að vegna starfa sinna og trúnaður skal vera um.

 

  1. gr.

Að virða hlutverk starfsmanna

Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum virða hlutverk starfsmanna Sveitarfélagsins Garðs.  Þeir mega ekki hlutast til um að starfsmenn geri neitt það sem hefur þann tilgang að verða kjörna fulltrúanum á beinan eða óbeinan hátt til hagsmunalegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum honum eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum.

 

  1. gr.

Stöðuveitingar

Kjörnir fulltrúar gæta þess að við stöðuveitingar hjá Sveitarfélaginu Garði sé í hvívetna fylgt lögum og reglum og að einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á starfsmönnum.

 

  1. gr.

Miðlun siðareglna til kjörinna fulltrúa, starfsfólks og almennings.

Kjörnir fulltrúar undirgangast þessar siðareglur með undirskrift sinni og lýsa því þar með yfir að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi.  Siðareglurnar skulu vera aðgengilegar starfsfólki bæjarins, almenningi og fjölmiðlum á heimasíðu bæjarins og annan þann hátt sem bæjarstjórn ákveður til að þessir aðilar geti gert sér grein fyrir meginreglum þeirra.

Siðareglurnar skulu teknar til umræðu í bæjarstjórn í upphafi hvers kjörtímabils.

Siðareglur þessar skulu sendar ráðuneytinu til staðfestingar, skv. 29. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 

Samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs þann 3. september 2014.

 

 

Færðu mig upp fyrir alla muni!