3810

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Sameiningarfréttir II, 19. febrúar 2018.

19. febrúar

Nafnanefnd auglýsti eftir tillögum að nafni á nýtt sveitarfélag þann 31. janúar og var tillögufrestur til hádegis 12. febrúar.

Hægt var að senda inn tillögur rafrænt, eða afhenda í ráðhúsum sveitarfélaganna. Sérstaklega var óskað eftir tillögum frá nemendum grunnskólanna í Sandgerði og Garði.  Alls bárust 392 tillögur, sem var framar vonum. Tillögurnar voru fjölbreyttar og skemmtilegar. Úr grunnskólunum komu nokkrar mjög skemmtilegar, eins og Frábær!

Við yfirferð tillagna hafði nafnanefndin leiðbeiningar Örnefnanefndar til hliðsjónar, enda þarf sú nefnd að veita jákvæða umsögn um þær tillögur sem koma til álita í atkvæðagreiðslu.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum og leiðbeiningum Örnefnanefndar skal nafnið samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Æskilegt er að nafn sveitarfélagsins beri með sér að um stjórnsýslueininguna sveitarfélag sé að ræða, þ.e. að heiti sveitarfélaganna endi til dæmis á -hreppur, -bær, - kaupstaður, -byggð, -þing eða beri forskeytið Sveitarfélagið.

Nafnið skal tengjast viðkomandi svæði sérstaklega. Ef nafn tengist einnig svæði sem ekki tilheyrir viðkomandi sveitarfélagi er gerð krafa um að viðkomandi sveitarfélag nái yfir meiri hluta þess svæðis sem nafnið tengist og að meiri hluti íbúa svæðisins búi í því sveitarfélagi. Jafnframt liggi fyrir að önnur sveitarfélög á svæðinu sem kunna að tengjast nafninu mótmæli því ekki sérstaklega að nafnið verði notað af sveitarfélaginu.

Nefndin var sammála um að nöfn sem vísa í núverandi nöfn sveitarfélaganna, eða eldri heiti þeirra komi ekki til álita. Æskilegt sé að nýtt sveitarfélag taki nýtt nafn, en heitin Sandgerði og Garður verði áfram nýtt um hvorn byggðakjarna. Nefndin hefur sent 10 tillögur að nöfnum til umsagnar Örnefnanefndar, sem hefur umsagnarfrest til annarar viku mars, en áætlað er að atkvæðagreiðsla fari fram fyrir páska.

 

Samtaka starfsmenn í sameinuðu sveitarfélagi

Við sameiningu sveitarfélaganna verður til rúmlega 200 manna vinnustaður. Starfsmenn eru lykilaðilar í því að veita íbúum góða þjónustu og leiða sameininguna farsællega. Miðvikudaginn 14. febrúar komu stjórnendur hins nýja sveitarfélags saman til að fræðast um stjórnun breytinga undir leiðsögn Sigríðar Indriðadóttur og Helgu Jóhönnu Oddsdóttur mannauðsráðgjafa. Fjallað var um verkefnin framundan og hlutverk stjórnenda við þær breytingar sem sameining leiðir af sér. Stjórnendur voru mjög áhugasamir og sjá mikil tækifæri framundan fyrir starfsemina og notendur þjónustunnar.

Föstudaginn 23. febrúar verður haldinn fyrsti fundur allra starfsmanna hins nýja sveitarfélags þar sem rætt verður um væntingar starfsmanna til sameiningarinnar, gildi nýs vinnustaðar og þá vinnumenningu sem starfsfólk vill að verði ríkjandi á nýjum vinnustað.

 

Mynd úr auglýsingu um sameiningu Garðs og Sandgerðis.
Færðu mig upp fyrir alla muni!