2799

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Reykjanes 2009

Sýningin Reykjanes 2009 verður haldin í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ dagana 4.-6. september í tengslum við 10 ára afmæli Ljósanætur. Sýningin er haldin undir yfirskriftinni „þekking, orka, tækifæri“ og þar verður kynnt margt það helsta sem Reykjanes hefur upp á að bjóða í atvinnulífi, menningu og þjónustu.

Sveitarfélagið Garður mun taka þátt í sýningunni og verður með þrjátíu fermeta svæði. Þar verður leitast við að kynna það helsta sem bæjarfélagið hefur fram að færa. Vonast er til að sem flestir leggi leið sína á sýninguna.

Um 40 sýnendur af öllum stærðum og gerðum munu kynna starfsemi sína, vörur og þjónustu á Reykjanesi 2009. Þar á meðal eru mörg stærstu fyrirtækin á svæðinu sem meðal annars standa að kröftugri uppbyggingu á Reykjanesi á einn eða annan hátt um þessar mundir.

Sýningin verður opnuð föstudaginn 4. september og megináhersla lögð á dagskrá fyrir fagaðila þann daginn. Almenningur verður boðinn velkominn alla sýningardagana, föstudag, laugardag og sunnudag og er aðgangur ókeypis. Opnunartímar eru frá 17:00 til 20:00 föstudaginn 4. september en 12:00 – 18:00 laugardag og sunnudag.

Auk kynninga á því sem fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Reykjanesi hafa upp á að bjóða verður reglulega boðið upp á skemmtiatriði í tengslum við Ljósanótt. Sent verður beint út frá sýningunni á útvarpsstöðinni Bylgjunni föstudag og laugardag. Nánari upplýsingar um Reykjanes 2009 má finna á slóðinni www.reykjanes2009.is .

Tólfta og síðasta menningar- og sögutengda gönguferð sumarsins 2009

Mæting er við Duushús í Reykjanesbæ sunnudaginn 6. september kl 11. Gengið verður með berginu út fyrir Helguvík í átt að Leiru og þaðan upp að gömlu þjóðleiðinni Sandgerðisvegi. Leiðinni verður síðan fylgt í Grófina þangað sem flestar þjóðleiðirnar lágu á Suðurnesjum um aldir. Svæðið býr yfir ótal mörgum sögum og minjum. Þátttökugjald er kr. 1000. Frítt fyrir börn undir 12 ára aldri. Vegalengdin er um 6 km og tekur 3 – 4 tíma með stoppum. Gott er að vera í góðum gönguskóm og með nesti. Gengið á mel og í grasi. Sjá upplýsingar um Ljósanótt og aðra þjónustu á www.reykjanesbaer.is
Gangan er tólfta og síðasta menningar- og sögutengda gönguferð sumarsins í gönguverkefninu AF STAÐ á Reykjanesið. Boðið hefur verið upp á þátttökuseðil þar sem göngufólk hefur safnað stimplum fyrir hverja ferð. Nú er komið að því að draga út þrjá heppna vinningshafa. Þátttakendur eru beðnir um að muna efti að taka þátttökuseðil með í gönguna. Allir eru velkomnir. Ferðamálasamtök Suðurnesja styrkja ferðina. Samtökin hafa staðið fyrir því að láta stika gamlar þjóðleiðir á Reykjanesskaga og gefa út myndkort af þjóðleiðum. Jafnframt hafa þau gefið út gönguleiðaleiðabæklinga af Sandgerðisvegi og Garðstíg. Bæklinga og göngukort er hægt að kaupa hjá upplýsingamiðstöð ferðamála Krossmóa 4.

Nánari upplýsingar um ferðir
Sigrún Jónsd. Franklín
www.sjfmenningarmidlun.is
sjf@internet.is/gsm 6918828

Þeir Jónas Ingi Magnússon og Sigurður Eysteinn Gíslason stunduðu nám í
nýsköpun í fyrravetur hjá Sigurði Víglundssyni kennara. Þar þróuðu þeir
humyndir og sendu inn í keppnina. Uppfinning og hugmynd Jónasar Inga er um
vatnshelda hlíf fyrir legur á hjólabretti og Sigurður Eysteinn kallar sína
hugmynd: Vatnsrörsrafall fyrir batteríshleðslu.

Nýlega fóru fagaðilar yfir 2700 hugmyndir sem skilað var inn í keppnina og
hugmyndir þeirra félaga komust í úrslit, ásamt 42 öðrum á öllu landinu.

Um næstu helgi munu þeir Jónas Ingi og Sigurður Eysteinn mæta vinnusmiðju í
Foldaskóla. Þar koma keppendur saman undir leiðsögn leiðbeinanda og hver
keppandi fær tækifæri til að útfæra hugmynd sína nánar, útbúa plakat, líkan
eða framsetningu sem lýsir hugmyndinn best. Að því starfi loknu tekur
verðlaunanefnd við og metur hvaða þátttakendur komast á verðlaunapall.

Lokahóf verður haldið laugardaginn 19. september í Grafavogskirkju.

Til hamingju strákar!

Sýningin Reykjanes 2009 er nú að baki og eru þeir sem stóðu að svæði Sveitarfélagsins Garðs bæði ánægðir og þakklátir öllum þeim fjölda sem lögðu leið sína til þeirra og spjölluðu, sýndu bæjarfélaginu áhuga og smökkuðu á því sem á boðstólum var. Saltfiskurinn sem Matarlyst framreiddi úr saltfiski sem Nesfiskur í Garði gaf var sérstaklega vinsæll og er uppskriftin hér:

Saltfiskréttur

500 g saltfiskur

150 g tómatar (soðnir)

½ laukur soðinn með tómötunum

1 dl olívur

½ dl yelapeno

1 rauðlaukur (smátt skorinn)

1 msk saxaður hvítlaukur

2 msk saxað kóriander

1 dl saxaðir sólþurkaðar tómatar

Saltfiskurinn soðinn, tómatarnir soðnir ásamt lauk sem hefur verið gylltur. Öllu síðan blandað saman köldu.

Aioli

250 g mayonaisse

1 eggjarauða

2 tsk hvítlaukur (smátt skorinn)

Allt þeytt létt saman og borið fram með saltfiskréttinum.

Kleinur bakaðar af kvenfélagskonum í Kvenfélaginu Gefn reyndust hinn besti eftirréttur.

Allir sem komu að undirbúningi sýningarinnar og framkvæmd eiga þakkir skyldar fyrir vel unnin störf, það er mikils virði þegar lagt er út í verkefni sem þetta.


Þann 1. september sl. breyttust reglur um útivistartíma barna og ungmenna. Vetrartíminn tók þá við sumartímanum og sá tími sem börn mega vera úti á kvöldin styttist. Frá 1. september til 1. maí mega börn 12 ára og yngri vera úti til kl. 20 en 13-16 ára mega vera úti til kl. 22. Miðað er við fæðingarár. Fyrir utan þessa tíma verða börn að vera í fylgd með fullorðnum.

Bregða má þó út af þessum reglum þegar börn 13-16 ára eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta-, eða æskulýðssamkomu.

Þessar reglur eru samkvæmt barnaverndarlögum.

Viðhorf til þess að virða reglur um útivist hefur breyst mjög á undanförnum árum enda hafa fleiri áttað sig á mikilvægi þeirra fyrir heilsu og vellíðan barna og ungmenna.

Hugmyndir vantar fólk hefur fengið nýtt heiti HUGMYNDAHÚSIÐ - ÁSBRÚ.

Hugmyndahúsið er með öfluga vetrardagsskrá sem hægt er að nálgast á virkjun.net. Vikulegu fundirnir sem áður voru á fimmtudögum eru nú á miðvikudögum kl. 17:00 - 18:30. Fundur verður haldinn í dag, miðvikudaginn 9. september kl. 17.00 en þá kemur Anna Lóa náms- og starfsráðgjafi MSS með fyrirlestur um sjálfsstyrkingu.

Kæru sóknarbörn!

Bréf þetta er sent til að upplýsa íbúa um tilhögun prestsþjónustu og skipulag helgihalds til áramóta. Við undirrituð höfum fundað saman og lagt línur sem hér segir: Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson tekur við embætti þann 1. nóvember n.k. og verður settur formlega í embætti við kvöldmessu í Útskálakirkju kl. 20.00 sunnudagskvöldið 8. nóvember. Er sú messa ætluð íbúum beggja sókna. Sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur í Grindavík annast aukaþjónustu fram til 1. nóv. Í því felst að hún annast tiltekið helgihald auk þeirra athafna sem óskað er eftir. Sími hennar er 696-3684. Fram að þeim tíma sem sr. Sigurður Grétar tekur við er velkomið að hringja í hann í s. 895-2243 s.s. til að bóka athafnir með þægilegum fyrirvara ef vill. Sunnudagshelgihald til áramóta verður sem hér segir:

20. september kl. 14.00 í safnaðarheimilinu í Sandgerði og kl. 20.00 í Útskálakirkju. Prestur sr. Elínborg Gísladóttir.

11. október kl. 11.00 í Hvalsneskirkju og kl. 14.00 í Útskálakirkju. Prestur sr. Elínborg Gísladóttir.

25. október kl. 11.00 í Útskálakirkju og kl. 14.00 í safnaðarheimilinu í Sandgerði. Prestur sr. Elínborg Gísladóttir.

8. nóv. Sameiginleg messa í Útskálakirkju kl. 20.00. Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson settur inn í embætti. Sr. Gunnar Kristjánsson prófastur þjónar fyrir altari með sr. Sigurði.

22. nóv. Messa kl. 11.00 í Útskálakirkju og kl. 14.00 í safnaðarheimilinu í Sandgerði.

29. nóv. 1. sd. í aðventu Messa kl. 11.00 í Hvalsneskirkju og kl. 14.00 í Útskálakirkju (Kirkjudagur kvenfélagsins).

13. des. Aðventusamvera kirkjukóra kl. 17.00 í Útskálakirkju og kl. 20.30 í safnaðarheimilinu í Sandgerði.

24. des. Aðfangadagur jóla. Aftansöngur kl. 18.00 í safnaðarheimilinu í Sandgerði og miðnæturmessa kl. 23.30 í Útskálakirkju.

25. des. Jóladagur. Hátíaðarmessa kl. 11.00 í Útskálakirkju og kl. 14.00 í Hvalsneskirkju.

31. des. Aftansöngur kl. 18.00 í safnaðarheimilinu í Sandgerði. Sameiginleg stund fyrir báðar sóknir.

Helgihald á Garðvangi verður auglýst sérstaklega.

Barnastarf verður með sama hætti og verið hefur, þ.e. kirkjuskóli í safnaðarheimilinu Sandgerði laugardaga kl. 11, og í Kiwanishúsinu í Garðinum kl. 13.30. Níu til tólf ára starfið er á þriðjudögum kl. 17 í Kiwanishúsinu í Garðinum.

Kyrrðar- og bænastundir eru í Útskálakirkju á miðvikudögum kl. 20.00.

Bænahópur á fimmtudögum í Kiwanishúsinu kl. 20.00.

Kóræfingar fyrir prestakallið í safnaðarheimilinu í Sandgerði þriðjudaga kl. 20.00.

Sigurður Grétar Sigurðsson, Elínborg Gísladóttir, Reynir Sveinsson og Jón Hjálmarsson

Vikuna 7. - 11. september var mikið fjör í leikskólanum Gefnarborg en þá var börnunum velkomið að koma með gæludýrin sín með í leikskólann.
Fjölbreyttar tegundir af dýrum komu í heimsókn s.s. fuglar, fiskar, kanínur, kind, lamb og margar tegundir af hundum.
Þetta er skemmtileg tenging heimila og skóla og nutu börnin sín vel.

Íbúafundur verður haldinn miðvikudaginn 16. september n.k. kl. 20:00 í Samkomuhúsinu.

Dagskrá:

Framtíðarsjóður Sveitarfélagsins Garðs

· Uppgreiðsla lána

· Kaup á landi

Samgöngur innanbæjar og til nágrannasveitarfélaga

Íbúar eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðunum.

Ákveðið hefur verið að vera með prjónakaffi í vetur. Hópurinn hittist á Flösinni öll þriðjudagskvöld frá og með 1. september. Húsið opnar kl. 20:30. Hugmyndin er að hittast og eiga notalega stund saman einu sinni í viku, skiptast á hugmyndum og læra hver af annarri. Kaffigjald er kr. 200.- á mann.

Allir eru velkomnir.

Saga Tónlistarskólans í Garði er táknræn fyrir vöxt og þroska góðrar hugmyndar ef vel er hlúð að fyrsta sprotanum. Það var fyrir rúmlega 30 árum síðan að tvær ungar konur úr Garðinum, þær Edda Karlsdóttir og Kristjana Kjartansdóttir tóku sig saman um að kanna möguleika á að stofna tónlistarskóla í Gerðahreppi svo að börn og unglingar gætu stundað tónlistarnám í Garðinum. Strax kom fram mikill áhugi fyrir þessu og var boðað til stofnfundar þann 26. febrúar 1979. Á fundinn mættu 22 fullorðnir og 6 unglingar. Stofnskrá var haldið opinni til 15. mars og voru þá stofnfélagar orðnir 60. Tónlistarskólinn var stofnaður 15. september 1979 og voru nemendur 63, fyrsti skólastjórinn var Herbert H. Ágústsson.

Nú 30 árum síðar er Eyþór Ingi Kolbeins skólastjóri og eru kennarar auk hans 11 og nemendur rúmlega 53 auk barnakórsins. Kennt er á mörg hljóðfæri auk tónfræðigreina og kórastarfs. Nemendur skólans taka virkan þátt í menningarlífi sveitarfélagisns þar sem þeir koma fram á hinum ýmsu viðburðum auk þess að halda tónleika og tónfundi.

Afmælisins verður minnst síðar í haust með tónleikum þegar nýi salurinn í Gerðaskóla verður tilbúinn.

Tónlistarskólanum er óskað alls hins besta á þessum tímamótum.

Sveitarfélagið Garður tekur nú í annað sinn þátt í Evrópskri samgönguviku en yfir 2000 evrópskar borgir taka þátt að þessu sinni. Markmið vikunnar er að vekja athygli á mikilvægi vistvænna samgangna og stuðla að bættum loftgæðum í borgum og bæjum í Evrópu. Á Íslandi hefur vikan hlotið yfirskriftina, Erum við á réttri leið?.

Sveitarfélög bera mikla ábyrgð þegar kemur að samgöngumálum og möguleikum íbúa til þess að nýta sér vistvænni samgöngur og velja réttu leiðina. Þeim ber að vera góðar fyrirmyndir og sýna fordæmi við ákvarðanatöku og framkvæmdir verkefna. Þátttaka í verkefni sem þessu gefur sveitarfélaginu tækifæri til þess að skapa nýjar leiðir fyrir íbúa og auka umhverfisvitund í samfélaginu með upplýstri umræðu og athyglisverðum verkefnum.

Með Samgönguviku í Garði er stefnt að því að ná til allra aldurshópa Garðbúa og skapa umræðu um málefnið á sem flestum vígsstöðum. Eitt helsta markmiðið er að hvetja alla, unga sem aldna, til þess að íhuga þau spor sem hver og einn skilur eftir sig í umhverfinu. Það skiptir máli hvernig spor liggja eftir okkur og við höfum möguleika á því að velja vistvænni kostinn í mörgum tilfellum.

Dagskrá Samgönguviku í Garði verður fjölbreytt og skemmtileg en hún miðar að því að kynna vistvæna möguleika í sveitarfélaginu. Vikan hefst á íbúafundi þar sem samgöngumál eru meðal annars á dagskrá. Þar fá íbúar tækifæri til þess að koma skoðunum og hugmyndum sínum á framfæri. Hugmyndir nemenda Gerðaskóla og Gefnarborgar verða einnig kynntar á fundinum en afrakstur hans verður nýttur við gerð áætlanar í anda Staðardagskrár 21. Nýtt og betrumbætt strætókerfi verður einnig kynnt.

Garðbúar og aðrir Suðurnesjamenn. Sýnum gott fordæmi og nýtum vistvænar samgöngur, inn með bílinn og út með hjólið!

Sjáið nánar á: http://www.svgardur.is/Umhverfismal/Samgonguvika/

Særún Rósa Ástþórsdóttir, formaður umhverfisnefndar.

Íbúafundur var haldinn í Samkomuhúsinu í Garði miðvikudaginn 16. september sl. Góð mæting var á fundinn og voru umræður fjörugar og gott hljóð í mönnum. Til umræðu var framtíðarsjóður Sveitarfélagsins Garðs, uppgreiðsla lána, kaup á landi og samgöngur innanbæjar og til nágrannasveitarfélaga. Jafnframt var kynnt dagskrá samgönguvikunnar sem nú stendur yfir.

Íbúafundir eru mikilvægir, þar gefst íbúum kostur á að koma sínum sjónarmiðum að um hina ýmsu málaflokka og eru því liður í að hafa virkt íbúalýðræði í bænum. Því ber að fagna að þeim fer fjölgandi sem nýta sér þessa leið og mæta fundi.

Á svæði Sveitarfélagsins Garðs á sýningunni Reykjanes 2009 gátu gestir tekið þátt í getraun og var verðlaunum heitið þeim sem næst kæmust réttu svari. Spurningin var

Færðu mig upp fyrir alla muni!