2743

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Gönguferð. Reykjanesbær-Hvalsnes-Hvalsnesleið

Af stað á Reykjanesið
Gönguferð sunnudaginn 3. september í boði Reykjanesbæjar í samvinnu við leiðsögumenn Reykjaness, FERLIR og Ferðamálasamtök Suðurnesja.

Reykjanesbær – Hvalsnes - Hvalsnesleið
Sunnudaginn 3 .sept. kl.11.00 . Mæting við Íþróttaakademíuna, Menntavegi 1.
Gengið verður eftir gömlu þjóðleiðinni frá Keflavík til Hvalsness, 7-8 km. Gatan er vel greipt í móann þar sem hún liðast um Miðnesheiðina. Mjög fallegar og heillegar vörður eru við hana, sem eru innan varnarsvæðis. Þær hafa ekki verið aðgengilegar almenningi undanfarna áratugi. Gatan er tiltölulega greiðfær.
Rútuferð til baka frá Melabergi. Rútugjald kr. 500. Frítt fyrir born yngri en 12 ára.

Gangan er síðasti hluti af fimm menningar- og sögutengdum gönguferðum um hluta af gömlu þjóðleiðunum á Reykjanesskaganum sem farnar hafa verið á tímabilinu frá 6.ágúst – 3. sept. ´06.
Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa gefið út göngukort “Af stað á Reykjanesið” og hafa jafnframt verið að stika gömlu þjóðleiðirnar.
Leiðsögumenn Reykjaness og FERLIR sjá um fræðsluna og leiða hópinn. Reynt verður að gera gönguna bæði skemmtilega og fræðandi. Ferðin miðast við alla fjölskylduna og er áætlað að gangan taki ca. 4 klst. með fræðslu og nestisstoppi. Að þessari ferð lokinni verður dregið úr kortum þeirra sem gengið hafa 3-5 þjóðeiðir. Einhverjir þrír heppnir fá góð verðlaun. Jafnframt verður myndasýning og kynning á gömlum þjóðleiðum á Reykjanesskaganum í Íþróttaakademíunni.

Landgangi hent tvívegis í höfnina í Garði
Hvalaskoðunarfyrirtækið Moby Dick hefur undaðfarið verið með landgang á höfninni í Garði vegna hvalaskoðunarferða sem hún hefur verið að bjóða uppá þaðan. Eitthvað hefur þessi viðleitni hennar í ferðatengdri þjónustu farið fyrir brjóstið á einhverjum í Garði sem hafa í tvígang hent landganginum hennar í höfnina.

Það er ekki mörg ár síðan að mörg tonn af rusli voru fjarlægð úr höfninni og viðleitni gerð til að endurvekja lífríkið og þá náttúruperlu sem þessi höfn getur verið. Það er því einlæg ósk undirritaðs að Garðbúar taki sig á í þessum efnum og reyni að koma í veg fyrir svona leiðindi.

Það er bannað að henda rusli í sjóinn, ekki bara þarna heldur alls staðar.

Kær kveðja,
Tómas J. Knútsson.
, Frábær aðsókn hefur verið að Byggðasafni Garðskaga og veitingastaðnum Flösinni í sumar. Fimm þúsund gestir hafa heimsótt safnið frá 1. mai sl. Ekki eru meðtaldir þeir sem hafa fengið sér hressingu á Flösinni.
Þá hefur tjaldsvæðið verið mikið notað í sumar og margt fólk farið upp í stóra vitann, í fjöruferðir og í fugla og hvalaskoðun en talsvert hefur sést af hval rétt innann við Garðskagaflösina í sumar.

Byggðasafnið er opið alla daga frá kl 13:00-17:00 til 31.október og í vetur eftir samkomulagi.
Flösin er opin virka daga frá kl 13:00-22:00 og um helgar frá kl 13:00-24:00.

Opið hús hjá félagsstarfi eldri borgara í Garði
Kynning verður á félagsstarfi eldri borgara í Garði miðvikudaginn 13. og fimmtuaginn 14. september kl. 13-15 í Sæborg. Kynnt verður félagsstarf vetrarins. Allir eru velkomnir og kaffi er á könnunni.

Að frumkvæði æskulýðsnefndar hefur bæjarstjórn samþykkt að bjóða
16 ára og yngri ókeypis í sundlaugina í Garði, frá og með laugardeginum
9. september 2006 til reynslu fram að áramótum.

Garðbúar 16 ára og yngri eru hvattir til að nýta sér tækifærið og fara í sund eins oft og þeir geta á þessu tímabili.

Búið er að setja niður ný leiktæki á leiksvæðið milli Fríholts og Einholts. Þegar bæjarstjórinn leit þar við voru hressir krakkar mættir á svæðið og sögðust ánægðir með tækin. Vonandi mun ungviði hverfisins njóta tækjanna og fá á leiksvæðinu útrás fyrir hreyfiþörf og leik í sátt og samlyndi.

Bæjarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum miðvikudaginn 20. september eftirfarandi ályktun:

„Bæjarráð Sveitarfélagsins Garðs lýsir yfir þungum áhyggjum af hraðakstri einkum á Garðvegi og Garðskagavegi. Alvarleg umferðarslys hafa valdið óbætanlegu tjóni og sorg. Bæjarráð hvetur Garðbúa til að segja stopp og skuldbinda sig til að fara eftir umferðarreglum og virða hraðatakmarkanir bæði innanbæjar sem og utan þéttbýlis. Einnig óskar bæjarráð eftir auknu umferðareftirliti lögreglu. Sýnum ábyrgð og virðum umferðarreglur.“

Félagsstarf Garðbúa sem eru 60 ára og eldri fer vel af stað. Opið hús er í Sæborgu þriðjudaga og miðvikudaga kl. 13 - 16 og fimmtudaga kl. 12 -15 en þá er boðið uppá léttan hádegisverð. Öryrkjar eru einnig velkomnir. Fyrsta fimmtudag hvers mánaðar kl. 11:30 verður sr. Björn Sveinn Björnsson með bænastund í Sæborgu. Þátttakendur taka sér ýmislegt fyrir hendur, s.s. spila, hekla, sauma perlusaum, búa til lampa og sérvéttudiska eða bara lesa blöðin og spjalla. Verið er að safna í hóp í útskurði og tiffani-gler. Boðið verður líka uppá kántrídans en þar geta 50 ára og eldri tekið þátt. Skráning í hópana fer fram í Sæborgu. Umsjónarkonurnar þær Ingibjörg og Sigurborg Sólmundardætur eru mjög ánægðar með þátttökuna og segja að starfið í vetur verði fjölbreytt og skemmtilegt. Þær benda einnig á að félagsstarfið sé ekki síður við hæfi karla en kvenna og hvetja karlmenn til að líta inn og kynna sér starfið. Þeir sem þurfa á aksti að halda til og frá Sæborgu eru vinsamlegast beðnir um að hringja í síma 8967935.

Reynir Katrínarson verður með myndlistasýningu í Byggðasafninu í Garði en sýningin verður opnuð sunnudaginn 1. október næstkomandi kl. 19:00.

Allar ljósmyndirnar á sýningunni eru af sama myndefninu eða þurrkuðum þorskhausum sem voru hangandi til þerris á trönum milli Garðs og Reykjanesbæjar.

Hugmyndin er 11 til 12 ára gömul hjá Reyni en hann ákvað að halda áfram með hana í sumar og að þessu sinni hafa myndirnar í lit en síðast voru þær í svart hvítu hjá honum.

Sýningin verður opin frá 1. október á opnunartímum Byggðasafnsin í Garði.

VF-mynd/ listamaðurinn Reynir Katrínarson

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hefur hvatt sveitarfélög á Suðurnesjum til að taka þátt í þeim viðburði með Reykjavík og nágrannasveitarfélögum, að slökkva götuljós frá kl. 22:00 til 22:30 fimmtudaginn 28. september. Tilgangurinn er að gefa fólki tækifæri til að sjá himininn í allri sinni dýrð án truflunar frá götuljósum. Stjörnufræðingur mun lýsa viðburðinum í beinni útsendingu á Rás 2. Bæjarráð Garðs hefur tekið jákvætt í erindið og slökkt verður á götuljósum í Garðinum á þessum tíma. Garðbúar eru hvattir til að slökkva ljós í húsum sínum kl. 22:00 þann 28. september, hlusta á Rás 2 og horfa til himins.

Bæjarstjóra Garðs, formanni bæjarráðs og byggingafulltrúa í Garði hefur verið falið að ganga til viðræðna við Reykjanesbæ og Norðurál um mögulega staðsetningu álvers, samstarfvettvang sveitarfélaganna og hugmyndir um reglur varðandi kostnað og tekjuskiptingu ef fyrirhugað álver mun liggja innan marka Sveitarfélagsins Garðs.

Þetta var ákveðið í framhaldi af því að lagðir voru fram til kynningar lóðarsamningar milli Reykjaneshafnar og Norðuráls ehf og hins vegar hafnarsamningar á milli sömu aðila.

Línudans fyrir 50 ára og eldri.

Skráning í línudans (Country-dans) fyrir 50 ára og eldri er hafin í Sæborgu þegar félagsstarfið er eða í síma: Ingibjörg 896 7935 eða Sigurborg 848 8445. Kennari er Valdís Valdimars. Einnig er komin dagskrá félagsstarfs fyrir vikuna 1.okt - 6.okt, hægt er að nálgast hana á -Félagsstarf aldraðra- sem er undir -Félög og tómstundir-.

Gerðaskóli og Tónlistarskóli Garðs hafa sameinast um það að stofna skólakór. Nemendum 3. og 4. bekkjar er boðið að taka þátt í kórnum og eru æfingar einu sinni í viku, á mánudögum strax að skóla loknum. Kórstjóri verður Vitor Hugo Eugenio, tónmenntakennari.
Það er bæði þroskandi og lærdómsríkt að taka þátt í kórstarfi og vonumst við til að sem flestir nemendur úr þessum bekkjum hafi áhuga á því að vera með. Ekki er krafist neinna sérstakra hæfileika en áhuginn er afar mikilvægur. Það er mikill menningarauki að skólakór sem getur komið fram við ýmis hátíðleg tækifæri. Við bindum vonir við að kórinn vaxi og dafni í framtíðinni.

Íbúafundur verður haldinn í Samkomuhúsinu í Garði
fimmtudaginn 5. október kl. 20:00

Sveitarfélagið Garður, Menningarsetrið að Útskálum ehf. og Útskálatún ehf. boða til fundar um uppbyggingu á Útskálum og nýlega auglýst deiliskipulag svæðisins.

Dagskrá

1. Menningarsetur og þjónustuhús, Jón Hjálmarsson
2. Hótelbygging, Jónas Franz
3. Deiliskipulag, Guðrún Jónsdóttir
4. Fyrirspurnir og umræður

Með von um að Garðbúar fjölmenni til að kynna sér hugmyndirnar
og taka þátt í umræðum um þær,

Sveitarfélagið Garður, Menningarsetrið að Útskálum ehf. og Útskálatún ehf.

Bæjarráð Garðs hefur lagt til að bæjarstjóra verði falið að skrifa undir samninga við fyrirtækið JG herragarða ehf sem hyggst reisa svokallaða herragarða í land sveitarfélagins.
Um er að ræða 12 lóðir á skipulagssvæði sem spannar 16 hektara. Hámarksstærð húsa er 700 fermetrar en auk þess má byggja á lóðunum hesthús, starfsmannbústað eða gestahús allt að 150 fermetrum. Byggingareitir eru frá 2,600 upp í rúmlega 3000 fermetra auk 625 fermetra byggingareits fyrir hesthús eða gestahús.

Á myndunum má sjá staðsetningu og skipulag svæðisins

Íbúafundur var haldinn í Samkomuhúsinu 5. október.

Fundurinn var samvinnuverkefni Sveitarfélagsins Garðs, Menningasetursins að Úskálum og Útskálatúns ehf. Tilgangurinn var að kynna hugmyndir varðandi uppbyggingu og starfsemi á gamla prestssetrinu að Útskálum og á svæðinu þar um kring.

Mikilvægt er að Garðbúar viti út á hvað hugmyndirnar ganga, sjái þær fyrir sér, séu sáttir við þær og geti hugsað sér að styðja við þær. Einnig er mikilvægt að þeir sem hafa athugasemdir við skipulagið og fyrirhugaða starfsemi setji þær athugasemdir fram til umræðu og frekari skoðunar.

Nýtt deiliskipulag fyrir svæðið er nú í kynningu og tekið er við athugasemdum um það til 26. október næst komandi. Þess vegna var einmitt þessi tímasetning valin fyrir íbúafundinn svo að Garðbúar fái tækifæri í kynningarferlinu, til að afla sér góðra upplýsinga frá fyrstu hendi og um leið tíma til að setja fram athugasemdir ef þeim sýnist svo.

Á fundinum fór Jón Hjálmarsson yfir undirbúningsvinnu varandi Menningarsetur og þjónustuhús. Jónas Franz ræddi hugmyndir um hótelbyggingu og Guðrún Jónsdóttir fór yfir deiliskipulagið með fundarmönnum. Sr. Björn Sveinn Björnsson, staðarhaldari að Útskálum og Hörður Gíslason, formaður Hollvinafélags Menningarsetursins tóku til máls áður en orðið var gefið laust til fyrirspurna og umræðna.

Mæting á fundinn var ágæt og þátttaka fundarmanna í umræðum mjög góð. Til nánari upplýsinga er bent á heimasíðurnar www.utskalar.is og www.svgardur.is.

Gerðaskóli endurnýjaði á dögunum tölvubúnað skólans með HP tölvubúnaði frá Samhæfni - tæknilausnum í Reykjanesbæ. Var búnaðurinn formlega afhentur í gær.

Settir voru upp skjávarpar í allar kennslustofur skólans og allir umsjónakennarar fengu fartölvur til afnota. Sett var upp þráðlaust net um allan skólann, þannig að kennarar geta unnið hvar sem er í skólanum, og einnig var kennslutölvum í tölvuveri skipt út. Þá voru settir upp nýjir prentarar og þar á meðal einn þráðlaus sem hægt er að færa milli staða innan skólans án þess að hafa áhyggjur af tengingum og flókinni uppsetningu.

Með tilkomu skjávarpa og nettenginga í kennslustofum skólans opnast nýjir möguleikar í kennsluaðferðum. Búnaðurinn hefur strax haft mjög jákvæð áhrif og eru kennarar skólans sammála um notagildi hans. Kennslan verður markvissari og athyglisverðari fyrir nemendur. Gerðaskóli er fyrstur grunnskóla á Íslandi, svo vitað sé, sem setur upp skjávarpa í öllum kennslustofum.

Mynd:
Við afhendingu búnaðarins í gær sýndu nemendur notagildi hans með því að sýna viðstöddum verkefni sem þeir hafa unnið um íslensk fjöll. Ljósmynd og texti: Víkurfréttir

Frú Sigrún Oddsdóttir, heiðursborgari Sveitarfélagsins Garðs, er 90 ára í dag 11. október 2006. Sigrún hefur unnið bæjarfélaginu mikið gagn í gegnum tíðina og eru íbúar Garðs afar þakklátir fyrir hennar óeigingjörnu störf í þágu samfélagsins. Ásamt því að sitja í hreppsnefnd Gerðahrepps fyrst kvenna á árunum 1962-1966 og 1970-1978 sinnti hún ýmsum öðrum trúnaðarstörfum með miklum sóma og dugnaði. Sigrún var formaður kvenfélagsins um ára bil og starfaði einnig ötullega að æskulýðsmálum og öðru félagsstarfi svo fátt eitt sé nefnt hér af hennar góðu störfum. Garðbúar óska heiðursborgaranum Sigrúnu Oddsdóttur innilega til hamingju með daginn.

Gerðaskóli hefur gengið til liðs við verkefnið Skólar á grænni grein sem er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Umhverfisnefnd Gerðaskóla hefur haldið reglulega fundi og nú síðast fékk hún framkvæmdastjóra Landverndar, Berg Sigurðsson, á fund til að fræða umhverfisnefndina betur um verkefnið og gefa ráðleggingar. Á fundinum voru fulltrúar kennara, fulltrúi foreldra, fulltrúi skólaliða og skólastjóri. Nú er verið að vinna að því að fá fulltrúa nemenda á öllum aldri til að sitja í umhverfisnefndinni og hafa þeir töluvert vægi því mikilvægt er að fá hugmyndir frá þeim og þeir eru góður tengiliður milli nefndarinnar og nemenda.

Menningar- og sögutengd ganga í boði Grindavíkurbæjar og Saltfiskssetursins verður laugardaginn 21. okt. og hefst kl. 11:00. Gangan hefst við nýja skiltið af Járngerðarstöðum, sögusviði Tyrkjaránsins 1627. Skiltið er við gatnamót Verbrautar og Víkurbrautar.

Genginn verður hringur um hverfið, m.a. að þeim stað þar sem að þjóðsagan segir að “tyrkjaþistill” vaxi. Gengið verður að dys Járngerðar og Járngerðarstaðabæjunum. Síðan verður gengið til baka meðfram strandlengjunni, með Járngerðarstaðavíkinni og vörunum, að gömlu bryggjunni og ýmislegt skoðað sem fyrir augu ber á leiðinni. Leiðsögumenn Reykjaness sjá um fræðsluna og leiða gönguna. Reynt verður að gera gönguna bæði skemmtilega og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Uppákomur s.s. hákarlasmakk o.fl.. Gangan endar við gamla Flagghúsið, sem verið er að endurgera og verður til sýnis í tilefni dagsins. Sjólist, handverkshús verður jafnframt opið.
Gangan tekur um einn og hálfan klukkutíma með fræðslustoppum. Fólk búi sig eftir veðri.

Dagana 24. og 25. október voru sérstakir áhersludagar í Gerðaskóla. Að þessu sinni var lögð áhersla á umhverfið og umhverfisvernd í tengslum við Grænfánaverkefnið sem skólinn tekur þátt í. Nemendur á öllum stigum unnu verkefni tengd umhverfinu og misjafnt var eftir bekkjum og áhuga nemenda hvert viðfangsefnið var.
Yngsta stig hugaði að endurvinnslu og flokkun sorps. Á miðstigi var m.a. týnt rusl, það vigtað og tegund þess skráð með það í huga hversu mikið magn af rusli sem skaðlegt er umhverfinu er að finna á víð og dreif um bæinn. Á elsta stigi voru m.a. útbúin veggspjöld með slagorðum sem hvetja til umhverfisvænni lifnaðarhátta. Nemendur 8. bekkjar fóru í vettvangsferð um bæinn og skoðuðu umhverfi fyrirtækja út frá umhverfissjónarmiði. Að sögn nemenda og kennara kom það á óvart hversu margt mátti betur fara í þeim efnum.
Afrakstur af vinnu nemenda er til sýnis á göngum skólans auk þess sem niðurstöður munu verða sýnilegar íbúum á nokkrum stöðum í bænum.
Með þessari vinnu hafa kennarar og nemendur að nokkru leyti hafið vinnu við Grænfánaverkefnið þar sem flokkun á fernum og pappír hófst í kjölfarið í flestum skólastofum skólans.

Knattspyrnufélagið Víðir í Garði heldur uppá 70 ára afmæli sitt laugardaginn 4. nóvember. Þá verður slegið til heljarinnar matarveislu þar sem í boði verður bland af sjávarréttum og lambakjöti. Á dagskrá verður m.a. uppboð á gömlum búningum, happdrætti að hætti Sigurjóns og auðvitað verða veitt verðlaun fyrir bestu leikmenn sumarsins, auk annarra skemmtiatriða sem eru í vinnslu. Gleðisveitin Buff leikur síðan fyrir dansi fram á nótt.

Samkomuhúsið verður opnað kl. 19:15 en borðhald hefst klukkan 20:00.
Forsala miða verður þriðjudagskvöldið 31. október klukkan 20:00 í Víðishúsinu. Miðaverð er 3500 krónur. Takmarkaður miðafjöldi er í boði.

Knattspyrnufélagið Víðir var stofnað árið 1936 og var með í deildarkeppninni af og til fram til ársins 1968. Uppgangur félagins hófst upp úr 1980 og árið 1982 vann Víðir sér sæti í gömlu annarri deildinni (nú fyrsta deild) og staldraði þar aðeins við í tvö ár því árið 1985 voru Víðismenn komnir í 1. deild (nú úrvalsdeild). Þrátt fyrir hrakspár héldu Víðismenn sér í deildinni í þrjú ár en féllu niður í 2. deild árið 1987. Víðismenn unnu sér aftur sæti í 1. deild árið 1990 en féllu jafnharðan niður aftur. Fallið var þungt og féll Víðir þá strax niður í 3. deild (2. deild nú). Víðir vann sér svo aftur sæti í 2. deild árið 1998 og unnu þá 3. deildina með yfirburðurm. Víðismenn hafa verið í 3. deild (neðstu deild) síðan árið 2004. Með ráðningu Steinars Ingimundarssonar þjálfara eru bundnar vonir við að nú takist að rífa liðið uppúr lægðinni.

Þann 7. nóvember voru undirritaðir samningar við JG Herragarða ehf. um byggingu á 12 sjávarlóðum neðan Garðvegar í landi Gufuskála og Rafnkelsstaða. Lóðirnar eru rúmlega 1 ha og verða byggð á þeim einbýlishús en einnig er möguleiki á byggingu gestahúss og hestshúss á lóðunum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist eftir áramót.

Allt frá landnámi hefur verið búseta að Útskálum í Garði.Heimildir eru til um það að kirkja hafi verið þar frá árinu 1200,og það hafi verið meðal betri brauða á landinu. Útskálaprestssetrið er eitt elsta prestssetur landsins.

Margir merkilegir prestar hafa setið á Útskálum í gegnum tíðina,þar má t.d. nefna þann mikla athafnamann og frumkvöðul séra Sigurð B.Sívertsen sem meðal annars stóð fyrir byggingu fyrsta barnaskólans á Suðurnesjum árið 1872,sem er einn af þremur elstu skólum landsins.

Útskálar voru frá fornu fari eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum,í fornum heimildum kemur fram m.a. að níu hjáleigur lágu til Útskála.

Núverandi íbúðarhús var byggt árið 1889 og þótti mjög virðulegt og glæsilegt,enda var um að ræða eitt mesta höfuðból af prestssetrum landsins.

Á síðustu árum og áratugum hefur verið ömurlegt að horfa upp á þetta merkilega höfuðból liggja undir skemmdum.

Nú horfir til betri vegar með uppbyggingu þessa merka höfuðbóls.

Þann 9.júlí 2004 var Menningarsetrið að Útskálum ehf.stofnað með það markmið að endurbyggja húsið og kirkjustaðinn í heild,að stofnun menningasetursins stóðu Útskálasókn,bæjarfélagið Garður og Sparisjóðurinn í keflavík.

Í húsinu verður menningarsetur prestssetra á Íslandi þar sem menningarhlutverki prestssetra verða gerð skil með sýningum gripa,myndefni og texta.þá verður aðstaða fyrir fræðimenn,ráðstefnuhalds ofl.

Þetta verkefni er stórt og metnaðarfullt og kostar mikla peninga,mikil undirbúningsvinna er að baki og framkvæmdir við uppbyggingu hússins er hafinn að fullum krafti. Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem hafa átt frumkvæði að því að hrinda þessu mikilvæga verkefni í framkvæmd,því að þessi merkilegi staður sem Útskálar hafa verið, hefur því miður ekki verið okkur Garðbúum og öðrum Suðurnesjamönnum til mikils sóma á síðustu árum.

Prestar sem sátu að Útskálum þjónuðu meginhluta Suðurnesja til ársins 1952.

Þann 24.mai 2005 var stofnað Hollvinafélag Menningarseturs að Útskálum,með það að markmiði að styrkja rekstur menningarsetursins með fjárframlagi.Í stjórn Hollvina sitja fimm einstaklingar ásamt tveimur til vara.

Stjórnin er búinn að senda um 1500 bréf til einstaklinga sem á einhvern hátt hafa tengst Útskálum í gegnum tíðina,og þeim boðið að gerast Hollvinur.Því miður hafa viðbrögð ekki verið eftir væntingum en við vonum að fólk taki vel við sér nú þegar uppbygging er komin á fullt skrið.

Til að benda fólki á það hvað margir geta gert mikið með litlum upphæðum t.d.ef að þessir 1500 einstaklingar legðu til 500 kr á mánuðu,gæti sú upphæð sem þannig safnaðist nægt til rekstur setursins á ársgrundvelli.

Garðmenn,Suðurnesjamenn og aðrir sem bera góðann hug til Útskála,tökum nú ærlega höndum samann og styðjum við þetta mikilvæga verkefni og sínum þessu forna höfuðbóli þá virðingu sem það á skilið.

Hollvinir geta skráð sig á vefsíðunni www.utskalar.is eða í síma 4227376,eða á póstfangið: Hollvinir,Sæborgu,250 Garður.

Ásgeir M. Hjálmarsson Garði.

Miðvikudaginn 15. nóvember kl. 20:00 – 22:00 ætla leiðsögumennirnir Sigrún Franklín, Rannveig Lilja Garðarsdóttir og Hildur Harðardóttir að bjóða íbúum og öðru áhugasömu fólki upp á sagnakvöld í Duus húsum í boði Reykjanesbæjar.

„Af stað á Reykjanesið“ heitir erindi Sigrúnar en hún mun sýna myndir og segja frá fornum þjóðleiðum til og frá Grófinni í Keflavík sem víða má enn sjá markaðar í landslagið og hugmyndir eru um að gera að vinsælum útivistarleiðum.

Saga svæðisins er mjög áhugaverð. Leiðsögumenn Reykjaness kynntu sér söguna og fylltust miklum áhuga vegna þess hversu athyglisverð hún er og vilja miðla hluta hennar áfram til íbúa og annarra gesta.

„Saga Duus veldisins“ Rannveig Lilja segir sögu Duus fjölskyldunnar og Duus húsanna frá upphafi til dagsins í dag. Húsin geyma mikla sögu um verslun og viðskipti sem hóst seint á nítjándu öld og stóð fram í byrjun tuttugustu aldar og lengur.

Hildur Harðardóttir hefur tekið saman sagnir og þjóðsögur af svæðinu og gefið út í bókinni „Sagnir úr Reykjanesbæ“. Hún mun velja góðar sögur til að segja áheyrendum.

Milli atriða verður fjöldasöngur við undirleik Geirþrúðar Bogadóttur, sungin verða ljóð Jónasar Hallgrímssonar, í tilefni af „Degi íslenskrar tungu“

Heitt verður á könnunni og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

www.reykjanesguide.is

Nemendur sem eru með lögheimili í Garðinum og þiggja ekki húsaleigubætur en stunda dagskólanám í háskólum eða annað nám sem ekki er í boði á Suðurnesjum, geta sótt um ferðastyrk á skrifstofu bæjarins. Með umsókninni þarf að fylgja staðfesting frá skólanum um að viðkomandi stundi þar nám og stundaskrá. Styrkurinn er greiddur út í maí og desember ár hvert.

Opinn skóladagur

Föstudaginn 24. nóvember er opinn skóladagur í Gerðaskóla. Þó svo að skólinn sé alltaf opinn foreldrum og öðrum góðum gestum þá var ákveðið að minna á það með þessum hætti og bjóða öllum að líta við. Skólastarfið verður í engu frábrugðið venjulegri stundarskrá á föstudegi en þó verður kaffisopi á boðstólum á göngum og muffins sem nemendur hafa bakað í tilefni dagsins.
Allir eru hjartanlega velkomnir og starfsfólk og nemendur vonast til að margir líti við.

Færðu mig upp fyrir alla muni!