2871

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Brot úr sögu Garðskagavita

Fyrsti vitinn hér á landi var Reykjanesvitinn. En þegar var kominn hugur í útgerðamenn um að fá fleiri vita og sjómerki, sérstaklega við Faxaflóa var hlaðin siglingavarða á Garðskaga. Í Suðurnesjaannál frá árinu 1847 segir svo: „Hlaðin varða á Skaganum til leiðarvísis sjófarendum". Þar með hófst vitasaga á Garðskaga. Árið 1884 settu menn járnrör með ljóskeri, upp á vörðuna, svokallaðan vörðuvita. Þessi framkvæmd dugði þó ekki, enda sjóleiðin afar hættuleg út af Skaganum. Um veturinn 1884 skipaði Útgerðarmannafélag við Faxaflóa nefnd til að athuga þessi mál og kom hún fram með tillögu um að vitar væru reistir á Garðskaga og Gróttu.

Gamli vitinn á Garðskaga

Gamli vitinn eins og hann er kallaður í dag var reistur árið 1897. Danska flotamálastjórnin sá um byggingu hans og lagði jafnframt fram helming kostnaðarins. Hann var í fyrstu kallaður Skagatáarviti, enda byggður á Skagatá. En hlaut síðan nafnið Garðskagaviti.

Merkisviðburður

Bygging vitans var merkisviðburður en í byggðarlaginu þá voru aðallega torfbæir og nokkur timburhús. Ljós Garðskagavitans sló bjarma á nágrennið, þar sem menn notuðust við ófullkomin olíuljós og lýsislampa, utanhússlýsing var engin. Hann var Iítill blossaviti og þannig úr garði gerður, að lóðaklukka sneri ljósabúnaðinum og stjórnaði Ijósmerkjunum. Þessa klukku varð að draga upp á fjögurra klukkustunda fresti.

Landbrot

Eftir því sem árin liðu braut sjórinn meir og meir land og var svo komið að vitinn stóð á hólma eða skeri og árið 1912 var gerð gangbrú út í vitann til að örugglega mætti komast í hann á hverjum tíma. Þegar brim var, gekk sjór svo yfir gangbrúna að þar var ófært og varð vitavörður oft veðurtepptur úti í vitanum.

Hlaupasprettur á grasflöt

Í frásögn Sigurbergs Þorleifssonar sem var vitavörður á Garðskaga og fæddist og ólst upp á þessum slóðum, kemur fram að frá aldmótunum 1900 fram í miðja öldina hafi brotið um 50 metra af landinu út að vitanum. Eldri menn sögðu frá því að það hafi verið langur hlaupasprettur á grasflöt fyrir framan vitann fram á flösina, nánar tiltekið fram að svonefndum Steinbítaklettum. Hve þetta er mikið má nokkuð marka af því, að frá gamla vitanum eru meira en 200 metrar út á Steinbítakletta.

Árið 1925 var hlaðinn og steyptur varnarpallur kringum vitann, og hefur hann verið endurbættur síðan. Árið 1970 var við Garðskagavita gerður öflugur sjóvarnargarður, sem heftir hamfarir hafrótsins og hlífir mannvirkjum og landinu sjálfu.

Vitavörður

Vegna slysahættu fyrir sjómenn, sem áttu leið fyrir Skagann, var starf vitavarðar ekki síður mikilvægt en ljósið úr vitanum. Ef skipstrand varð en þau voru tíð á Garðskagaflös, var nauðsynlegt að þar væri duglegur og áreiðanlegur vitavörður. Dæmi eru um að mannbjörg hafi orðið er skipin strönduðu vegna fljótra aðgerða vitavarða, er tókst að ná í menn sér til hjálpar. Meðan skipsmenn voru ráðalausir um borð og treystu sér engan veginn til að yfirgefa skipið.

Frekar borgað úr eigin vasa

Þeim hafa einnig þótt vænt um vitana, sem hér hafa staðið vaktina yfir ljósinu. Sagt var um Ísak Sigurðsson sem sat hér sem vitavörður í tvo áratugi, að hann hafi gert sitt ýtrasta til að láta ljósið vera sem mest og skærast. Stundum var kvartað yfir að hann skyldi nota of mikla olíu eða fægiefni, en hann hefði frekar borgað það úr eiginn vasa heldur enað slaka nokkru til á ljósmagninu. En til þess kom þó aldrei.

Garðskagaviti 100 ára

Sunnudaginn 17. ágúst 1997 var haldið upp á 100 ára afmæli Garðskagavita. Siglingastofnun og Garður stóðu sameiginlega að því að bjóða almenningi að koma og skoða vitana og Byggðasafnið á Garðskaga. Talið er að um 600-700 manns hafi komið þennan dag út á Garðskaga í ágætu veðri. Slysavarnarfélagskonur buðu gestum upp á kaffi og meðlæti í vitavarðarhúsinu.

1944

Gamli vitinn gegnir ekki sínu fyrra hlutverki lengur, en því lauk er nýi vitinn var reistur árið 1944. Í honum var upphaflega samskonar lóðaklukka og í gamla vitanum, sem þó nægði að draga upp á tíu klukkutíma fresti, þar sem nýi vitinn er meira en helmingi hærri en hinn. En allt þess konar er nú úr sögunni, þvi að rafbúnaður kom í stað gamla búnaðarins.

Vinnan við Garðskagavita

Hann var byggður á þremur mánuðum af 10-15 manna vinnuflokki, undir stjórn Sigurðar Péturssonar frá Sauðárkróki, en hann annaðist byggingu 60 vita hér á landi. Minnast nú nokkrir gamlir Garðmenn þess, að sem ungir menn hafi vinnan við Garðskagavita undir stjórn Sigurðar Péturssonar verið sú besta verknámskennsla sem þeir hafi komist í á ævinni.

Vígður við hátíðlega athöfn

Voru þá vitar landsins orðnir 140, þó aðeins væru liðin 66 ár frá því að fyrsti vitinn var reistur (Reykjanesviti). Garðskagaviti var vígður sunnudaginn 10. september 1944, með mikilli viðhöfn. Fór vígslan fram með útiguðsþjónustu. Séra Eiríkur Brynjólfsson, sóknarprestur predikaði, kirkjukórar Útskála og Keflavíkursókna sungu, en Emil Jónsson, vitamálastjóri flutti vígsluræðuna. þakkaði hann sóknarprestinum, séra Eiríki Brynjólfssyni á Útskálum, sem hafði undirbúið hátíðarhaldið, en það væri í fyrsta sinn sem tekið væri á móti nýjum vita í héraði af slíkum myndarskap.

„Minnir það mig á”, sagði Emil í ræðu sinni, „að fyrstu sagnir um leiðarljós fyrir sjómenn á Íslandi, eru tengdar við kirkjuna. Mér hefir verið á það bent, að verið hafi hér til forna, um 1200 og jafnvel fyrr ákvæði um að ljós skyldi loga í ákveðnum kirkjum, allar nætur tiltekin tímabil. Þegar þessi ákvæði voru rannsökuð nánar kom í ljós, að flestar þær kirkjur, sem hér var um að ræða, voru nálægt sjó, og á þeim stöðum þar sem ætla má að sjófarendur hafi getað notið þeirra.” Er ræða Emils Jónssonar mjög fróðleg og um margt merkileg.  


(Ræða Emils er prentuð í Suðurnesjablaðinu FAXA, nóv.-blaði 1944). 

Samantekt 

Guðmundur Magnússon

Heimildir:

Þorsteinn Gíslason - Sigurbergur Þorleifsson - Tímaritið Ægir - Faxi - Undir Garðskagavita eftir Gunnar M. Magnúss. (Héraðsaga Garðs og Leiru).

 

Gamli vitinn á Garðskaga, málverk eftir Braga Einarsson, sveitarfélagið
Nýji vitinn á Garðskaga, fólk í vitanum, Mannlífið í Garði
Guðni Ingimyndarson, Ásgeir Hjálmarsson, byggðasafnið á Garðskaga
Nýji vitinn á Garðskaga, fólk í vitanum, Mannlífið í Garði, sólseturshátíð
Færðu mig upp fyrir alla muni!