205

 

 

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.
- Vettvángur dagsins.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Innskráning

Brot úr byggðasögu Garðs

Söguna af Steinunni gömlu þekkja flestir Garðmenn. Garður var í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Skömmu eftir að hann nam land og reisti bú sitt í Reykjavík, gaf hann frænku sinni Steinunni gömlu landið Suður með sjó. Steinunn hafði komið til Íslands og verið með Ingólfi þann fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. Fyrir það gaf hún honum heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla. En hvers vegna skyldi Steinunn gamla, ein allra landnámsmanna í landnámi Ingólfs hafa greitt fyrir land sem henni var gefið? Steinunn hefur verið veraldarvön og ekki viljað standa í þakkarskuld við frænda sinn og þótt það öruggara við riftingu.

Í Þórðarbók Landnámu segir frá Gufa Ketilssyni, syni Ketils Bresasonar landnámsmanns. Hann vildi setjast að í Nesi, en hraktist þaðan suður á Rosmhvalanes undan ofríki Ingólfs Arnarsonar og vildi byggja að Gufuskálum. Steinunn var lítt hrifinn af því að fá hann í landnám sitt og gerðu þau samning um að hann færi á brott, en hét því á móti að vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi. Með Hólmi er vafalítið átt við Hólm í Leiru og er þessi frásögn merkileg fyrir þá sök eina, að hún er elsta heimild, sem til er um útræði frá Suðurnesjum.

Rosmhvalur er gamalt heiti yfir Rostung og bendir til þess að Rostungar hafi verið við Reykjanes á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Um það verður þó ekki fullyrt og er vel eins hugsanlegt að landnámsmenn hafi fundið dauðan Rostung eða Rostunga rekna á fjöru. Fleiri dæmi sýna að örnefni hafi orðið til af skepnum eða öðru því sem hefur rekið á fjörur.

Heimildir benda til þess að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi fiskveiðar og annar sjávarútvegur einkum verið stundaður að vorlagi, áður en heyannir og kornskurður hófust.

Í Grágás er talað um fiskiskála. Þar sem fólk mátti hafast við á vertíðum. Líklegast er að vermannastöðin í Hólmi hafi verið þeirrar gerðar. Gufuskálar hafa trúlega verið hluti vermannastöðvarinnar. Örnefni sem hafa endinguna – skáli eru býsna mörg á annesjum víða um land í nágrenni góðra fiskivera. Í Garðinum eru tvö örnefni, sem bera endinguna - skáli og hafa að líkindum upphaflega verið aðsetursstaðir vermanna. Gufuskálar og Útskálar.

Kann fyrrnefnda nafnið vera dregið af Gufa Ketilssyni, en gæti þó allt eins hafa myndast vegna morgunþokunnar, sem er tíð á þessum slóðum, einkum að vorlagi. Útskálar er hins vegar dregið af staðsetninngu versins utarlega á nesinu og haft merkinguna Ytri eða Ystu skálar. Fleirtölumyndin – skálar bendir til að fleiri en einn skáli hafi verið á hvorum stað. Fólk hefur þyrpst á þessa staði á vorin stundað fiskveiðar og nýtt önnur hlunnindi yfir vertíðina, eins og fugl, egg og dún.

Engar tölulegar heimildir eru tiltækar um mannfjölda í Garðinum fyrir árið 1703. Gerð mannvirkja á borð við Skagagarðinn hafa verið mannfrek, jafnvel þó hún tæki mörg ár. Snemma á öldum var akuryrkja á Garðskaga. Þá var hlaðinn veggur eða garður frá túngarði á Kirkjubóli í beina stefnu að Útskálum í Garði, en þetta er rúmlega tveggja kílómetra leið. Garðurinn hefur líklega verið reistur á 10. öld. Garður þessi var mikið mannvirki og mótar fyrir honum enn í dag, þar sem hann er næstum sokkinn í jörð.

Tilgangurinn með mannvirkinu er talinn hafa verið að verja akurlöndin fyrir búfé, sér í lagi kindum. Garðurinn var stöllóttur þeim megin sem að akurlöndunum sneri, en þverhníptur hinum megin. Þetta var til þess að hægt væri að reka kindur, sem inn komust, beint á garðinn og stukku þær þá upp stallana að innanverðu og út af honum að utanverðu. Af Skagagarðinum er talið að sveitarfélagið Garður dragi nafn sitt.

Garður á Rosmhvalanesi hefur verið með búsældarlegri svæðum landsins áður en landkostir spilltust af Reykjaneseldum. Gjóskufall og sandstormar hafa gert fólki erfitt fyrir og um og eftir 1200 breyttust atvinnuhættir og Garður varð sjávarbyggð.

Samantekt

Guðmundur Magnússon

 

 

 

 

Steinunn gamla, Ingólfur Arnarson, Leiran, Hólmsvöllur
Skagagarðurinn, grjóthleðslur, Garðskagi
Saltfiskur, fjallahringur, konur að breiða
Áraskip, sjómenn, vatnslitamynd
Færðu mig upp fyrir alla muni!